Posts

Showing posts from June, 2019

Coca Cola, pírökur og plokkfiskur

Image
Ég sé á Facebookinu mínu að í sumum Evrópulöndum er ég orðinn 41 árs. Ég er byrjaður að fá kveðjur. Í San Pedro Sula á ég enn sjö tíma eftir sem fertugur maður. Raunar eru ekki nema kannski þrír mánuðir frá því ég hélt upp á fertugsafmælið – með Nödju, sem var líka að fagna 41 árs afmælinu sínu. Það var mjög skemmtilegt kvöld – ég varð ofsalega fullur og gerði ósköpin öll af kokteilum og hló hátt og greip fram í fyrir fólki einsog ég væri ekki í grunninn fyrst og fremst haugur af alls konar félagslegum komplexum (einsog svo margir). Hvað um það. Í gær fórum við Nadja í fjallgöngu upp að helsta kennileiti borgarinnar, Coca Cola skiltinu. Þessi mynd er af internetinu. Maður sér skiltið ekkert mjög vel þarna uppi – bara svona hornin á því. Fjallið heitir El Merendón og upphaflega var víst sett upp skilti þarna fyrir Muebles Capri húsgagnamerkið. Árið 1984. Því var ekkert haldið við og þegar það var fjarlægt fannst fólki eitthvað vanta – skiltið laðaði fólk að. La Cerveceria Hondur

Sundhettur og kvennabúr

Nú held ég dagbók þriðja daginn í röð og varla annað hægt. Ég var svo illa fyrirkallaður í gær og allt eitthvað svo hrikalega ómögulegt. En svo rættist nú bara úr deginum þrátt fyrir allt. Fyrst komst ég aftur á skrið í skrifunum og það er einfaldlega allt betra þegar mér gengur að skrifa. Bíllinn var síðan víst ekki á verkstæði og eftir vinnu keyrði ég gengið í eitthvað hoppuland og fór sjálfur í mallið – keypti mína langþráðu gítarstrengi, nýtt slide og þumalneglur, nýja sundskýlu, sundhettu (svo ég brenni ekki á skallanum ef ég syndi í sólinni) og nærföt. Svo brunaði ég heim, pantaði mexíkóskan mat fyrir alla, fór í ræktina, át matinn (sem var góður), las fyrir krakkana, við Nadja fórum út í garð í göngutúr og settumst við laugina og spjölluðum heillengi áður en við fórum aftur upp og kláruðum Chernobyl-seríuna. Svo las ég eitthvað fram á nótt eftir að hún sofnaði. Svaf yfir mig í morgun. Samt vakna ég alltaf síðastur. Stilli vekjaraklukkuna á níu. Í morgun vaknaði ég tuttugu mínú

Fótboltastríðið

Image
Þetta er svolítið farið að leggjast á sálina. Ég hef sama og ekkert skrifað í þrjá daga. Ef ég tel daginn í dag, sem er í sjálfu sér ósanngjarnt – hann var að hefjast. Ég fór líka ekkert niður að laug, sat bara í herberginu okkar og hlustaði á suðið í loftkælingunni þar til mér fannst einsog hausinn á mér ætlaði að springa. Þá slökkti ég á loftkælingunni og sat bara og svitnaði í staðinn. Hér er engin sérstök hitabylgja en samt jafn heitt og í hitabylgjunni á meginlandi Evrópu. Ég hef synt 1,5 kílómetra annan hvern dag og ef ég fer eftir hádegi er laugin hlandvolg og þung gegnumferðar. Það verður ekkert af helgarferðinni á lúxushótelið við ströndina. Ég var svo sem búinn að spyrja að því áður hvort valdaránsafmælið á föstudaginn gæti ekki haft áhrif á ferðaplönin – án þess að fá beinlínis svar – en þegar ég svo spurði við matarborðið í gær þar sem mágur minn var með, hvort það hefði engin áhrif, þá sagði hann bara: Já, nei, einmitt, nei þá förum við ekki neitt. *** Í gær rifjaði

Pizza Forno og Pizza Escopazza

Image
Við erum búin að endurbóka ferðina á lúxushótelið við ströndina. Ætluðum að fara á síðustu helgi en þurftum að hætta við vegna mótmæla – þjóðvegirnir voru meira og minna lokaðir – en förum nú á laugardag í staðinn. Það er alls ekkert víst að það gangi upp samt. Á föstudag eru nefnilega liðin tíu ár frá því hægrimenn/kapítalistar/herinn stálu hér völdum með fulltingi bandarískra yfirvalda. Ef mótmælendur kjósa að minnast þess, t.d. með því að gera byltingu, þá er ósennilegt að við komumst á ströndina. Einangrunin á Panorama hefur annars bara aukist. Bíllinn er á verkstæði og eina leiðin úr húsi sú að taka leigubíl. Sem er í sjálfu sér ekki stórmál en við höfum ekkert látið það eftir okkur og þar með ekki farið úr húsi síðan í innkaupaleiðangrinum langa á laugardag. Eða ekki út fyrir grindverkið – og varla að ég hafi farið úr húsi í gær heldur, bara í nokkrar mínútur, annars hef ég bara setið uppi á herbergi og skrifað. Fór í ræktina og hljóp svolítið en hún er innanhúss. Í herbergin

Bilað fingrafar, Bush forseti og Burger King

Í gær var ég í lyftunni á leiðinni úr bílakjallaranum upp fílabeinsturninn endilangan þegar lyftan staðnæmdist og inn kom trúboðalegur maður – svört jakkaföt, nafnspjald í barminum, grátt hár, snyrtileg miðaldra kona í kjól með honum, bæði með vingjarnlegt en strangt augnaráð. Hann ávarpaði okkur á spænsku en virkaði samt amerískur – kirkjan sem hann var merktur bar spænskt nafn. Eitthvað um Jesú Cristo. Sjálfur maðurinn hins vegar hét „Presidente Bush“. *** Það er ekki alveg laust við að maður fái snert af kofabrjálæði af að vera hérna. Ekki skil ég hvernig þeir díla við þetta auðkýfingarnir sem eiga heima hér allan ársins hring. Þeir láta stjana við sig – leggja ekki í bílastæðahúsinu heldur keyra bara upp að lobbíinu, stíga út með börnin og láta starfsmennina leggja bílnum og bera vörurnar upp í íbúð. Fyrir þetta tipsa þeir – mér skilst að starfsfólkið geri nánast hvað sem er fyrir tips ef hægt er að koma því við. *** Ég var mjög duglegur að læra spænsku með duolingo áður en

MEL og JOH og Maiden og Madonna

Ég get ekki lofað því að ég muni senda út daglega tilkynningu um að við lifum enn – en við lifum allavega enn. Og raunar, svo það sé nú alveg rækilega undirstrikað, þá erum við eins örugg og við getum orðið. Það hættulegasta sem gerist í okkar lífum er þegar við hlaupum á sundlaugarbakkanum (sem við gerum auðvitað ekki, það er stórhættulegt og alveg bannað). Mér finnst reyndar líka húsfreyjan hérna svolítið frökk að þíða kjúkling á eldhúsborðinu í 31 stiga hita – og skjóta skökku við að hún vilji geyma eggin og smjörið í ísskápnum – en þetta er ekki mitt eldhús og ég reyni að skipta mér ekki af. Svona gerir maður þetta ábyggilega í Peking og þá verður bara það gott að heita. Fáein atriði sem er ágætt að fá á hreint. 1. Við fjölskyldan – ég, Nadja, Aram og Aino – förum yfirleitt til Svíþjóðar og Finnlands á sumrin. Það er hluti af dílnum sem ég gerði þegar ég dró Nödju til Íslands með mér. Við verðum líka einn vetur – sennilega þarnæsta – í Svíþjóð svo krakkarnir fái að prófa sænska

Hinn myrki fönix

Image
Það skemmtilega við að blogga frá og um Hondúras er að ef ég blogga ekki í nokkra daga – þrjá núna – fer fólk að gera ráð fyrir að ég hafi verið skotinn. Eða í það minnsta tekinn til fanga – haldið gegn lausnargjaldi. Þetta eykur eftirspurnina eftir skrifum mínum mikið. Ég þarf að finna einhverja leið til að beisla þessa eftirspurn á bókamarkaði. *** Fyrsta áratug þessarar aldar vísuðu Bandaríkjamenn úr landi um fimmtíu þúsund Hondúrasbúum sem gerst höfðu sekir um glæpi, mikið til í tengslum við starfsemi glæpagengja. Þetta er um fimmtungur allra sem hefur verið vísað úr landi til Mið-Ameríku fyrir að brjóta lögin. Útflutningur upp á fimm þúsund gengismeðlimi á ári – bara til Hondúras.  Trump vill meina að fara til Bandaríkjanna frá Mexíkó og Mið-Ameríku séu allt meira og minna glæpamenn (og laumu-múslimskir hryðjverkamenn) – en í raun væri sennilega eðlilegra að snúa þessu við, þótt flæðið sé auðvitað í báðar áttir. Gengin sem ráða lögum og lofum í Hondúras – MS-13 og Barrio

Mega mall

Í gær fórum við Nadja út að borða. Við fórum á veitingastað sem heitir Lupita Mongie og við mælum ekki með honum, ef þið skylduð vera á ferðinni. Forrétturinn sem ég fékk mér – einhvers konar skinku lasagna sneið með parmesan – var svo vondur að ég kláraði hann ekki. Og ég borða alltaf matinn minn, allt sem fyrir mig er lagt. Parmesansneiðin ofan á honum var á bragðið einsog vikugamall kantur af MS-Tindi. Ferðin á veitingastaðinn var líka leiðinleg. Við tókum leigubíl – hann kom hálftíma of seint (hafði orðið einhver misskilningur) og við báðum hann að koma og sækja okkur, en sögðum tímann sem við höfðum ákveðið í upphafi án þess að bæta við þessari hálftíma seinkun og enduðum á að þurfa að rusla í okkur matnum og drífa okkur út á götu. Nema þar var enginn leigubíll. Við biðum aftur í hálftíma – á meðan það gerðist varð mótorhjólaslys handan götunnar og allir starfsmenn veitingastaðarins ruku af stað til að skoða þegar sjúkrabíllinn kom. Þeir voru skellihlæjandi – sem mér þótti mjög sk

Café Costello

Image
Stundum finnst mér einsog dagurinn hérna sé ekki nema svona klukkustund. Fyrst vaknar maður og fær sér morgunmat og þegar maður er búinn að borða morgunmat er of heitt til að fara út í laug – og of hættulegt til að fara nokkuð annað. Í dag eru líka mótmæli niðri í bæ – kennarar og læknar eru í verkfalli, forsetinn er mjög óvinsæll – og ekki mælt með því að neinn fari þangað. Ekki endilega vegna þess að það sé hættulegt (þótt það sé það) heldur vegna þess að það kemst enginn spönn frá rassi. Maður fer bara þangað og lætur snúa sér við. Þá hangir maður og býður þess að komi tími til að borða hádegismat. Þegar búið er að borða hádegismat þarf að fá sér síestu – a.m.k. börnin – og þegar hún er búin þarf að fá sér snarl. Eftir snarlið er loksins orðið bærilegt að vera úti – UV indexið komið undir 6 og enginn ætti að brenna mikið lengur. Þá hefst þessi klukkustund sem maður „gerir eitthvað“ – fer niður að laug, syndir og hangir utan íbúðarinnar. Þegar hún er búin fer maður upp og gerir kvöld

Sjónarhæð

Image
San Pedro Sula, önnur stærsta borg Hondúras og heimili okkar næstu tvo mánuði, var fram til ársins 2016 sú borg í heiminum þar sem flest morð voru framin miðað við höfðatölu. Árið 2013 voru framin 187 morð á hverja 100 þúsund íbúa. Það jafngildir því að það væru framin um 600 morð á Íslandi á ári hverju. Hondúras tilheyrir fátækasta hluta Suður Ameríku og ójöfnuður er með því mesta sem gerist í heiminum. Um tveir þriðju landsmanna lifa við fátækt og það fer ekkert framhjá manni. Hér er síðan eiginlega engin millistétt. Maður er annað hvort fátækur eða ríkur. Ég kann ekki á ginistuðla og get ekki lesið í GDP en Hondúras er nálægt botni allra lista sem hantera slíkar tölur. Landið er líka mjög íhaldssamt – fóstureyðingar varða sex ára fangelsisvist fyrir bæði fósturbera og lækni og annað er eftir því. Mjög margir flýja land til Bandaríkjanna og Mexíkó og óhemja af þeim eru sendir aftur til baka á degi hverjum – þúsundir. Hér ráða tvö gengi ríkjum, MS-13 (Mara Salvatrucho) og Barrio 1