MEL og JOH og Maiden og Madonna

Ég get ekki lofað því að ég muni senda út daglega tilkynningu um að við lifum enn – en við lifum allavega enn. Og raunar, svo það sé nú alveg rækilega undirstrikað, þá erum við eins örugg og við getum orðið. Það hættulegasta sem gerist í okkar lífum er þegar við hlaupum á sundlaugarbakkanum (sem við gerum auðvitað ekki, það er stórhættulegt og alveg bannað). Mér finnst reyndar líka húsfreyjan hérna svolítið frökk að þíða kjúkling á eldhúsborðinu í 31 stiga hita – og skjóta skökku við að hún vilji geyma eggin og smjörið í ísskápnum – en þetta er ekki mitt eldhús og ég reyni að skipta mér ekki af. Svona gerir maður þetta ábyggilega í Peking og þá verður bara það gott að heita.

Fáein atriði sem er ágætt að fá á hreint.

1. Við fjölskyldan – ég, Nadja, Aram og Aino – förum yfirleitt til Svíþjóðar og Finnlands á sumrin. Það er hluti af dílnum sem ég gerði þegar ég dró Nödju til Íslands með mér. Við verðum líka einn vetur – sennilega þarnæsta – í Svíþjóð svo krakkarnir fái að prófa sænskan skóla. Í ár ákváðum við hins vegar að fara til Hondúras í staðinn. Hér býr bróðir Nödju, Yesper, sem vinnur fyrir flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna, ásamt konu sinni, Yi, og syni þeirra, Rion. Áður var Yesper í Tansaníu en þar var ekki hægt að hafa fjölskylduna hjá sér. Þá voru Yi og Rion bara í Peking og hittust frekar sjaldan – öðruvísi en í gegnum tölvu. Ég segi stundum að við höfum komið hingað til að kenna kínversku barni sænsku og það er ekki alveg lygi. Rion talar samt alveg svolitla sænsku og skilur svo til allt. Við komum líka hingað til að hanga með Yesper og fjölskyldunni hans enda hittum við þau annars lítið – þegar þau fara til Svíþjóðar erum við á Ísafirði og þegar við förum til Svíþjóðar eru þau í Peking, Tansaníu eða San Pedro Sula.

2. Nafnið á blogginu og slóðin. Hondurass/Hondurumpa. Það sló mig á einhverjum tímapunkti að þetta væri sennilega rakinn dónaskapur – ég væri að kalla landið einhvers konar „anus mundi“, rassgat heimsins – en þá var það orðið of seint. Hér er lífið vissulega erfitt fyrir flesta en það er líka mjög fallegt og fólk er upp til hópa vinalegt og gott. Þetta er líka góður staður – ekki anus mundi. Nafnið er frá Aino komið – ég held þannig að hún var að útskýra fyrir vinkonu sinni hvert hún væri að fara og þeim fannst mjög fyndið að landið héti rass. Rumpa er reyndar fyrsta orðið sem ég lærði á sænsku. Þá var ég 11 ára – þetta var sumarið 1989 og ég var á Benal Beach á Benidormi, hóteli sem að mörgu leyti svipar til Panorama í San Pedro Sula. Þar kynntist ég sænskum strák sem hét Stefan og var alltaf að reyna að fá mig til að hlusta á Iron Maiden – og ég að reyna að fá hann til að hlusta á Madonnu (innan við ári seinna dömpaði ég Madonnu fyrir Maiden, en það gerðist ekki þetta sumar). Hann spurði mig hvort ég vissi hvað rumpa þýddi á sænsku og þegar ég sagði nei sneri hann sér við í lauginni, fór í hálfan kollhnís og rak rassinn upp úr vatninu.

3. Fyrir nokkrum árum fundust gamlar rústir í Moskitía regnskógunum í Hondúras – talið er að þetta sé frumskógarborgin sem Charles Lindbergh sagðist hafa flogið yfir á sínum tíma. Nú voru menn að finna þar ótal sjaldgæfar dýrategundir og þar af einhverjar sem taldar voru útdauðar, meðal annars tígrisbjöllu sem hafði áður einungis fundist í Níkaragúa. Hundruð fiðrildategunda, tugi leðurblakna, tugi skrið- og froskdýra og svo framvegis. Segið svo að það gerist aldrei neitt spennandi hérna!

4. Lætin eru gengin niður í bili. Óeirðirnar búnar. Ég tók vel að merkja ekki myndirnar sem birtust í síðustu færslu – þetta er bara fengið af netinu. Helsta krafa mótmælenda og verkfallsmanna er að forsetinn, Juan Orlando Hernandez (kallaður JOH) segi af sér – dropinn sem fyllti mælinn var að hann ætlar að einkavæða skóla og heilbrigðiskerfi, en seta hans á valdastóli er þess utan talin ólögmæt af flestum.

Í Hondúras var ekki frír skóli fyrir börn – eða matur í skólum – fyrren Manuel Zelaya (kallaður MEL) var kosinn árið 2005. MEL var kosinn sem íhaldsmaður – sonur auðkýfings, úr sömu stétt manna og Trump – en snerist svo bara í embætti og gerðist fljótlega bandamaður Rauls Castro og Hugo Chavez. Einsog ég sagði frá í síðustu færslu var honum vikið til hliðar af auðjöfrum, hernum og Bandaríkjastjórn (sem þóttist samt standa með honum – það kom fram í Hillarypóstunum að í raun unnu þau gegn honum). MEL var líka umdeildur og sakaður um spillingu og margir sem mótmæltu honum og töldu að hann væri að reyna að breyta stjórnarskránni svo hann gæti boðið sig fram aftur – í Hondúras mega forsetar bara bjóða sig fram í eitt kjörtímabil. Hann sagði það sjálfur af og frá og fullyrti í viðtali skömmu fyrir valdarán að hann hefði fullan hug á að sitja bara sitt eina kjörtímabil og ekkert meir. Ég held síðan að það verði samt að hafa í huga að í Mið- og S-Ameríku er varla að finna einn einasta forseta sem hefur ekki verið sakaður um spillingu og þeir voru ábyggilega flestir að minnsta kosti svolítið sekir. Ég reikna fastlega með því að spillingarásakanirnar í garð MEL eigi við rök að styðjast – tölfræðin er þannig að ég tel hann bara sekan þar til sakleysi hans er sannað. Svona er ég sínískur.

Á milli MEL og JOH var svo einn forseti (eða tveir, ef maður telur starfandi forseta eftir valdaránið með), Porfirio Lobo Sosa (kallaður Pepe Loba). Loba virðist hafa komist í gegnum sitt kjörtímabil án mikilla vandræða. Hann var íhaldsmaður og bauð sig fram fyrir Þjóðarflokkinn – var gagnrýndur af Human Rights Watch fyrir að láta blaðamenn hverfa en hampað af Obamastjórninni fyrir að stofna sannleiksráð til að grafast fyrir um valdaránið sem kom honum til valda.

JOH var kosinn árið 2014. Hann er líka meðlimur í Þjóðarflokknum. Hann er fimmtánda af sautján börnum foreldra sinna og menntaður í Bandaríkjunum. JOH hefur löngum verið talinn gerspilltur á alla mögulega vegu og í síðasta mánuði veittu bandarískir saksóknarar aðgang að skjölum sem sýndu að hann og systkini hans voru alvarlega grunuð um þátttöku í eiturlyfjasmygli og peningaþvætti. Bróðir hans – Antonio, fyrrverandi þingmaður fyrir Þjóðarflokkinn – var handtekinn í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum fyrir að smygla fleiri tonnum af kókaíni sem hann hafði merkt með upphafsstöfum sínum. JOH sór fyrir að hafa gert neitt rangt sjálfur og sagðist eiga í góðu samstarfi við DEA.

Sýnu alvarlegast þykir þó að JOH gerði það sem MEL var sakaður um að reyna. Hann bauð sig fram aftur árið 2017. Greinin um að maður megi það ekki er ein af þremur greinum stjórnarskrárinnar sem er einfaldlega bannað að hrófla við – það heita landráð. Hæstiréttur samþykkti samt framboð hans – með tveimur atkvæðum gegn einu og hann vann kosningar sem alþjóðlegir eftirlitsaðilar töldu engan veginn lýðræðishugsjónum sambjóðandi en Bandaríkjamenn fögnuðu sem stórsigri fyrir lýðræðið á svæðinu. Eitt af stærstu kosningamálum JOH var að senda herlögregluna út á göturnar til að gæta öryggis. Það segir sitt um það hversu öryggir Hondúrasbúar telja sig á götum að það teljist vænlegt til vinsælda að lofa því að setja skriðdreka á öll götuhorn.

Síðasta áratuginn – frá því MEL var hrakinn úr embætti – hafa útgjöld til mennta- og menningarmála dregist saman um 40%. Laun hafa verið fryst og allar fjárfestingar bannaðar – hér þarf ekki að spá í mygluðum skólastofum, sumir skólar eru asbestmengaðir og ekkert gert í því. Sama gildir í heilbrigðisgeiranum. Í San Pedro Sula eru engar mæðraskoðanir og bara tekið á móti neyðartilfellum. Það eru ekki einu sinni til sárabindi á spítölunum.

5. Við förum sennilega ekkert á þetta lúxushótel við ströndina á morgun. Frestum því um viku. Það er víst vandkvæðum bundið að komast um þjóðvegina eftir ólætin í gær og fyrradag. Það er óhætt að fara niður í bæ aftur – eða eins óhætt og var, keyrandi og svona – svo við erum búin að versla í matinn og allt í góðu. Væsir ekki um okkur. Útsýnið yfir þetta gúlag kapítalismans er óneitanlega gott héðan af sextándu hæðinni og ef rétt stemning myndast er aldrei að vita nema við hendum nokkrum mólotovkokteilum niður af svölunum – þó ekki væri nema bara til að sýna lit.

Comments

Popular posts from this blog

Barnasafn og Englagarðar

Hinn myrki fönix

Heiðríkjuströnd og Jaðisæhestur