Grísarassar og Pílagrímsferðir

Við komum heim frá Útila á miðvikudag og ég kláraði skáldsöguna á föstudag. Brúna yfir Tangagötuna. Sennilega á ég eftir að gera á henni milljón smábreytingar en engar stórar – þetta er komið. Síðan hefur mér liðið eiginlega einsog ég hafi verið holaður að innan. Ég fór beint í að skrifa þessa upp úr Hans Blævi og hef einhvern veginn ekkert litið upp í svolítið langan tíma. Er hugsanlega í einhvers konar tilvistarkrísu.

En það er annað ferðalag.

Við komumst heil heim frá Útila og vandræðalaust. Mjög fyndið að fara í innanlandsflug á túristaeyju þar sem er ekki einu sinni flugstöðvarbygging. Þegar við fórum til Útila frá flugvellinum í San Pedro Sula lentum við í tómum vandræðum með fótboltann hans Arams – sem átti að taka af okkur ef við tækjum ekki loftið úr honum (sem við höfðum engin ráð með eiginlega). Ég endaði á að smygla honum í gegn. En frá Útila til San Pedro Sula hefðum við sennilega getað haldið á eldvörpu í fanginu án þess að nokkur hefði sagt píp.

Annars hefur allt sosum verið meinhægt. Jocke, bróðir Nödju og Yespers, kom á föstudag og ætlar að dveljast hérna í tvo mánuði. Við förum næsta föstudag og þá fær hann herbergið okkar en þangað til sefur hann á dýnu frammi í sjónvarpsholi. Síðasta sunnudag fórum við í epíska pílagrímsferð – 20 mínútna gönguferð utandyra. Lengra höfum við ekki farið. Við gengum öll saman og vorum mjög yfirveguð og ekkert stressuð og lentum ekki í neinu. Sennilega munar þar mestu um að vera ekki einn – já og auðvitað að maður sé á ferð í björtu. Ferðinni var heitið í Diunsa og La Colonia til að kaupa mat og hluti og hafðist bæði að mestu. Á leiðinni heim stoppuðum við á Welchez til að borða hádegismat. Aram er orðinn svo deigur af að búa hérna að hann fékk algert frekjukast yfir tilhugsuninni um að þurfa að ganga heim – einn einasta kílómetra. Það endaði með því að honum var boðið að taka leigubíl einn en hann afþakkaði það.



Þótt Aram sé orðinn latur til líkamlegrar iðju er hann mjög duglegur við þá andlegu og vill helst ekki láta trufla sig við lestur. Ryður í sig bókum – búinn með Dodda-bækur Þórdísar Gísla og Hildar Knúts, Vetrarseríu Hildar að auki og Hungurleikana alla. Samt er bara þriðja hver bók sem hann les á íslensku, vel að merkja, og bókaflokkarnir sem hann hefur verið að lesa á sænsku allt mun lengri bækur – Olympens Hjältar, Percy Jackson og Apollon aðallega (5-6 bækur í hverri, 4-500 síður hver).

Í gær fórum við Nadja svo út að borða. Á Ísafirði reynum við að borða bara tvö saman einu sinni í viku en þetta var bara í annað sinn sem við náum því hérna. Við fórum á dýrasta veitingastaðinn í bænum. Sem var ekki mjög dýr reyndar – sérstaklega ekki miðað við að pizza og svoleiðis er ekkert ódýrara hér en í Svíþjóð. Hann er kenndur við miðjarðarhafið og heitir La Cité. Við fengum bæði forrétt (hægeldaðan grísarass og gvakamólí) og aðalrétt saman (sjávarréttarpaellu) og hvort sinn eftirréttinn (tiramisu og cremé brulée). Nadja drekkur að vísu lítið áfengi og ekkert í gær – svo drykkirnir hennar voru ábyggilega ekki dýrir. Einhver myntuhræringur og svo te á barnum. Ég fékk mér Gin Martini í fordrykk, sangríu með matnum, koníak eftir matinn og G&T á barnum. Samanlagt voru þetta tíu þúsund krónur. Svo er fólk alltaf að býsnast yfir því hvað matur sé ódýr í Evrópusambandinu!

Við vorum mjög lengi að komast á veitingastaðinn. Umferðin var öll í hönk vegna mótmæla. Háskólastúdentar höfðu komið sér fyrir undir brú á helstu umferðaræðinni í bænum og lokað öllu. Við ræddum þetta svolítið við bílstjórann – eða Nadja gerði það, en ég hlustaði og skildi eitt og annað – og hann virtist ekki láta þetta á sig fá. Talaði um að það væri mikil spilling í landinu og það ætti að fara að einkavæða vegi. Það var ekki á honum að skilja annað en þetta væru allt mjög nauðsynlegar aðgerðir. Eiginlega er það yfirleitt svo þegar við tölum við fólk hérna. JOH virðist ekki mjög vinsæll – en þótt það sé einhvers konar ógnarstjórn þá er fólk ekki hrætt við að tjá sig (einsog maður upplifir t.d. bæði á Kúbu og í Víetnam, þar sem fólk vill alls ekki tala um pólitík nema það þekki mann vel eða sé drukkið).

Á götu nálægt veitingastaðnum voru fleiri tugir ef ekki hundruð manns úti að skokka eftir einni götu. Bílstjórinn sagði okkur að þarna kæmi fólk saman til að hlaupa og þar væru alltaf einhverjir frá morgni til kvölds (en kannski ekki margir yfir heitasta tímann). Það er öryggi í að vera mörg saman. Annars hef ég séð fólk úti að skokka líka þarna við Diunsa, einu sinni, sem virkaði nú aðallega hættulegt út af umferðinni.

Það hefur verið talsverður órói síðustu daga vegna frétta um að JOH, forsetinn, hafi tekið við peningum frá eiturlyfjasmyglurum. Þetta kemur nú sjálfsagt engum á óvart – bróðir hans er í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að smygla fleiri tonnum af kókaíni – en alltaf óþægilegt að fá frekari staðfestingar. Ég vona bara að það fari ekki að verða eitthvað vesen á umferðinni á föstudag þegar við þurfum að komast út á flugvöll. Það er ein af leiðunum sem er reglulega bara lokað.

Nú er eiginlega bara eftir að pakka. Og kaupa það sem við viljum taka með okkur heim. Við leggjum af stað á föstudag – fljúgum til Stokkhólms í gegnum Miami og Amsterdam. Tökum rútu til Västerås og gistum eina nótt þar. Fljúgum svo til Keflavíkur – Aram og Nadja í síðdegisflugi en við Aino í kvöldflugi. Gistum í Keflavík eina nótt. Ég þarf að fara í viðtal í Reykjavík á mánudagsmorguninn. Og ná í bækur (frönsku Gæsku) upp á forlag. Svo keyrum við í Sælingsdal og gistum þar eina nótt. Og loks heim á þriðjudag. Guð hvað það verður gott.

Comments

Popular posts from this blog

Barnasafn og Englagarðar

Hinn myrki fönix

Mega Bites