Heimferðin

Við erum komin heim. Það tókst ekki alveg áfallalaust.

Við mættum út á flugvöll í San Pedro Sula síðastliðin föstudagsmorgun. Ég svaf ekkert um nóttina, vel að merkja – í einhverju týpísku stresskasti. Í röðinni nefndi Nadja að við værum ekki með neitt ESTA – svona áritun til að komast inn í Bandaríkin – og ég sagði að það gæti nú varla skipt neinu máli, við værum bara að fara að millilenda. Ætluðum ekkert út af flugvellinum. Þegar við flugum til San Francisco fyrir rétt rúmum tveimur árum vorum við viðstöðulaust minnt á að ganga frá ESTA umsókninni en Nadja – sem bókaði flugfarið – hafði ekkert slíkt fengið.

Hins vegar stóð þetta alveg heima. Það er ekki hægt að millilenda á bandarískum alþjóðaflugvelli nema vera með samþykkta ESTA umsókn. Það tekur ekki nema um hálftíma að fá hana samþykkta og í raun höfðum við nægan tíma, mættum mjög tímanlega á völlinn. Hins vegar var netið á flugvellinum epískt drasl og okkur tókst ekki að tengjast á neinu tæki nema símanum hennar Nödju – með brotnum skjá – og ég hamaðist í rúma klukkustund við að fylla þetta út, meðan netið datt inn og út, án árangurs. Klukkustund fyrir brottför lokaði tékk-innið og okkur var bent á að bíða þar til vélin væri farin svo kanna mætti framhaldið.

Við settumst á kaffihús á flugvellinum – Dunkin' Donuts – og ég kláraði umsóknirnar okkar á tölvu (sem tengdist þeim megin í húsinu). Eftir nokkra klukkutíma kom fólkið aftur og sagði okkur að við gætum farið með sömu vél til Atlanta daginn eftir (ég var að rugla með Miami hérna um daginn, við áttum aldrei bókað í gegnum Miami) og þaðan áfram til Amsterdam. Hins vegar væri leggurinn Amsterdam-Stokkhólmur fullbókaður og við bara á biðlista. Flugið okkar frá Stokkhólmi um kvöldið var á annarri bókun en við ættum að geta náð því ef við kæmumst af biðlistanum.

Við fórum aftur heim í fílabeinsturninn. Ég var mjög bugaður og lá bara í sófanum fram á kvöld. Nadja og krakkarnir fóru í laugina. Svaf eitthvað, loksins, og svo eitthvað meira um nóttina en engin ósköp. Við mættum rúmum þremur tímum fyrir brottför en stóðum svo í röðinni – eða þar við hliðina – í tvo tíma að reyna að kanna möguleika á að breyta flugum eða fixa eitthvað svo við kæmumst áfram frá Amsterdam. Þegar við náðum loks sambandi við einhvern sem gat aðstoðað okkur vorum við spurð hvers vegna við hefðum ekki hringt í hana strax – eða hvers vegna starfsfólkið hefði ekki gefið okkur samband strax – og að nú væri það of seint. Við tékkuðum inn og héldum áleiðis til Atlanta og Amsterdam.



Inni í fríhöfninni vorum við svo kölluð upp – ég var á klósettinu með Aino og fékk hálfgert taugaáfall, hljóp æpandi á Nödju yfir hálfa fríhöfnina (hélt að við værum við vitlaust hlið og að missa af fluginu eða eitthvað). Greip svo í einhvern starfsmann sem leiddi mig áleiðis og lét mig vita að við hefðum verið færð upp á fyrsta klassa frá SPS til Atlanta. Það var mjög fínt.

Ég svaf svo ekkert í næturfluginu til Amsterdam. Ekki eina mínútu. Það var minna fínt. Í Amsterdam settumst við á kaffihús til að reyna að redda áframhaldinu. Nadja fór að einhverjum desk og Aram vildi fara að skipta um buxur og ég sendi hann einan á klósettið, sem mér sýndist bara vera handan við hornið, og var einhvern veginn of steiktur til að fatta þegar Aino fór á eftir honum líka. Þegar hún var horfin fyrir hornið kíkti ég þarna og sá að þetta var ekki einfaldur gangur heldur gekk hann yfir í annan sal og klósettin voru þar við dyrnar út. Ég var með allan farangurinn og kexruglaður af þreytu – stóð bara þarna um hugsaði um Ekkert mál eftir Njörð og Frey Njarðvík, þar sem heróínsjúklingurinn Freyr stundar það að ræna túrista á Schiphol. Þegar Aram sneri einn til baka – og vissi ekkert um sex ára systur sína – hljóp ég af stað og ruddist inn á kvennaklósettið æpandi. Við heldur lítinn fögnuð viðstaddra. Fyrst svaraði Aino ekkert og ég hélt það myndi líða yfir mig – svo heyrðist í henni og mér var gríðarlega létt, sem og konunum sem stóðu í biðröð fyrir utan klósettið og ég hafði spurt eftir dóttur minni.

Eftir um tveggja klukkustunda netráp á kaffihúsinu og símtöl og samtöl við fólk á deski reyndust valkostirnir fyrst og fremst þrír. 1) Borga 300 þúsund og fara heim í gegnum Kaupmannahöfn og ná hótelinu sem við áttum bókað (á gjafakorti sem við fengum í afmælisgjöf frá mömmu og pabba). 2) Fara á hótel í Amsterdam og ókeypis áfram til Stokkhólms daginn eftir – en þurfa þá að kaupa nýtt flugfar heim. Það hefði kostað um 200 þúsund. 3) Vera í Stokkhólmi í viku og komast heim fyrir 150 þúsund.

Lúin og létt buguð völdum við fyrsta valkostinn. Og vorum minna buguð fyrir vikið. Komin með lausn og á leiðinni heim með kvöldinu. Miðinn til Íslands var fyrsta klassa – þótt stutta flugið til Kaupmannahafnar væri reyndar í klassalausri dollu. En við fengum inni á lounge-i, með mat og drykk, og svo í lúxusvél frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur. Ólafur Elíasson sat fyrir framan mig. Dóra Júlía instagram-DJ fyrir aftan mig. Mér hefur sjaldan fundist ég jafn mikið vera að meika það – eins falskt og það meik nú var. Fjölskyldan svaf en ég fékk mér „norrænu þrennuna“ – graflax, rækjur og síld – og skolaði því niður með bjór sem hét að ég held Snæbjört. Eða tveimur. Ég get staðfest að fyrsti klassi hjá Icelandair er umtalsvert fyrstari en fyrsti klassi hjá Delta Airlines – þar sem maður fær að vísu frían mat og drykk, en bara sama og er í boði annars staðar (ofsoðið ostapasta) og bjórinn er Miller Lite.

Töskurnar urðu auðvitað eftir. Tengingin í Kaupmannahöfn var tæp. Það var í sjálfu sér lán í óláni. Bíllinn okkar er mjög lítill og við vorum með alltof mikið af töskum. En fengum að keyra heim í tómum bíl með nóg pláss.

Í Keflavík sváfum við á beisnum. Og ég svaf loksins aðeins. Vöknuðum á mánudagsmorgni, fengum okkur morgunverð og tókum rútuna til Reykjavíkur. Völdum að fara ekki með Reykjavík Excursions að þessu sinni heldur einhverju öðru fyrirtæki sem átti að keyra á „bus terminal“ – sá terminall var svo bara þeirra eigins kaffihús rúman kílómetra frá BSÍ. Þangað þurftum við að taka leigubíl. Bíllinn okkar beið þar á planinu – við fórum beint og tókum bensín (við hliðina á anarkistanum Jóni Gnarr – sem var að fylla á bensínbrúsa og hlusta á hljóðbók um fall vestrænnar siðmenningar). Nadja og krakkarnir fóru í Kringluna að redda nærfötum og hlýrri fatnaði – enda við öll enn klædd fyrir Hondúras, Aino og Nadja beinlínis enn á ilskóm – en ég fór í viðtal í Tengivagninum.

Við gerðum okkur líka ferð í Nexus þar sem Aram fékk að eyða peningum sem hann hafði safnað sér og taka í höndina á ídoli sínu, Jóni Geir, ísfirðingi og trommara í Skálmöld. Við átum hádegismat á Tokyo í Glæsibæ og brunuðum svo í Sælingsdal fyrir kvöldið.

Þegar við komum heim seinnipart þriðjudags – biðu töskurnar eftir okkur á ganginum. Pabbi hafði farið út á völl og sótt þær fyrir okkur.

Nú treo-tillífa ég milli þess sem ég bryð íbúfen og sting úr kaffibollum. Ég hef sofið ágætlega síðustu tvær nætur en verð ábyggilega nokkra daga í viðbót að jafna mig. Er ekkert nema hor og höfuðverkur. Svo þarf ég að finna út úr því hvernig ég borga fyrir þetta fyrsta klassa flug þarna um daginn. Fyrir norrænu þrennuna.

Comments

Popular posts from this blog

Barnasafn og Englagarðar

Hinn myrki fönix

Heiðríkjuströnd og Jaðisæhestur