Sundhettur og kvennabúr

Nú held ég dagbók þriðja daginn í röð og varla annað hægt. Ég var svo illa fyrirkallaður í gær og allt eitthvað svo hrikalega ómögulegt. En svo rættist nú bara úr deginum þrátt fyrir allt. Fyrst komst ég aftur á skrið í skrifunum og það er einfaldlega allt betra þegar mér gengur að skrifa. Bíllinn var síðan víst ekki á verkstæði og eftir vinnu keyrði ég gengið í eitthvað hoppuland og fór sjálfur í mallið – keypti mína langþráðu gítarstrengi, nýtt slide og þumalneglur, nýja sundskýlu, sundhettu (svo ég brenni ekki á skallanum ef ég syndi í sólinni) og nærföt. Svo brunaði ég heim, pantaði mexíkóskan mat fyrir alla, fór í ræktina, át matinn (sem var góður), las fyrir krakkana, við Nadja fórum út í garð í göngutúr og settumst við laugina og spjölluðum heillengi áður en við fórum aftur upp og kláruðum Chernobyl-seríuna. Svo las ég eitthvað fram á nótt eftir að hún sofnaði.

Svaf yfir mig í morgun. Samt vakna ég alltaf síðastur. Stilli vekjaraklukkuna á níu. Í morgun vaknaði ég tuttugu mínútur í tíu og hafði einfaldlega sofið af mér hringinguna. Át morgunmat og skrifaði inni í herbergi – ég þarf að fara að læsa inn til mín, heimadrengurinn Rion ryðst alltaf inn til mín og vill fara að spila á gítarinn minn. Þegar ég missi einbeitinguna – ef ég er þá búinn að finna hana – tekur það mig oft langan tíma að ná aftur tökum á sögunni. Augnabliks truflun á hálftíma fresti getur þannig gert vinnudaginn að engu. Á endanum fór ég niður að laug og vann þar undir svínheitri sólinni – af því ég var að lesa grein um rannsókn þar sem var fullyrt að fólk sem sólaði sig ekki nóg, af því það væri svo upptekið af því að sólskin væri óhollt, dræpist fyrr og fengi krabbamein og ég veit ekki hvað – synti svo minn eina og hálfa kílómetra og fór upp að éta og lesa það sem ég skrifaði í morgun.

Niðri við laug var hópur af konum sem sat í skugganum og spjallaði. Ég hef áður sagt að maður sjái sjaldan karlmenn hérna á flandri en það er ekki alveg satt – hér er nokkuð af vinnandi karlmönnum. Þeir ganga um með verkfæri, stiga, kúst og fæjó og ýmsar vélar. Nokkrar konur vinna svo líka í móttökunni og við skúringar innanhúss. Karlar kvennana sem lóna niðri við laug með eða án barna eru svo allir einhvers staðar að reka fyrirtæki, sinna frama í stjórnmálum eða skipuleggja glæpastarfsemina í þessu landi. Flestir sennilega bara að reka lítil fyrirtæki samt – virka allavega meinleysislegir. En það sló mig samt í morgun þar sem ég sat niðri við laug – og vann, vel að merkja! – að Panorama væri einsog hálfgert nútíma harem eða kvennabúr, geymslustaður fyrir konur og börn þeirra sem mega sín mikils. Einu konurnar sem ég þekki hérna eru reyndar hámenntaðar og Nadja er auðvitað bara í sumarfríi og Yi í eins konar síðbúnu mæðraorlofi og það getur vel verið að eitthvað svipað eigi við um margar aðrar konur í húsinu.

Ég hef séð á Twitter tilkynningar um mótmæli víðs vegar um landið en það hefur enn ekkert spurst til óeirða hérna. En það gæti átt eftir að breytast í kvöld. Ef allt er í rónni förum við hugsanlega á rand á morgun, kíkjum á markað og eitthvað. Sjáum til.

Comments

Popular posts from this blog

Barnasafn og Englagarðar

Hinn myrki fönix

Heiðríkjuströnd og Jaðisæhestur