Café Costello

Stundum finnst mér einsog dagurinn hérna sé ekki nema svona klukkustund. Fyrst vaknar maður og fær sér morgunmat og þegar maður er búinn að borða morgunmat er of heitt til að fara út í laug – og of hættulegt til að fara nokkuð annað. Í dag eru líka mótmæli niðri í bæ – kennarar og læknar eru í verkfalli, forsetinn er mjög óvinsæll – og ekki mælt með því að neinn fari þangað. Ekki endilega vegna þess að það sé hættulegt (þótt það sé það) heldur vegna þess að það kemst enginn spönn frá rassi. Maður fer bara þangað og lætur snúa sér við. Þá hangir maður og býður þess að komi tími til að borða hádegismat. Þegar búið er að borða hádegismat þarf að fá sér síestu – a.m.k. börnin – og þegar hún er búin þarf að fá sér snarl. Eftir snarlið er loksins orðið bærilegt að vera úti – UV indexið komið undir 6 og enginn ætti að brenna mikið lengur. Þá hefst þessi klukkustund sem maður „gerir eitthvað“ – fer niður að laug, syndir og hangir utan íbúðarinnar. Þegar hún er búin fer maður upp og gerir kvöldmat og borðar kvöldmat og þegar kvöldmaturinn er búinn fara allir að sofa.

Þetta eru auðvitað dálitlar ýkjur. Í gær horfðum við til dæmis á bíómynd með börnunum eftir kvöldmat – heimilisfólkið fór reyndar að sofa. En við sofnum snemma og vöknum snemma. Nadja hefur í tvígang lognast út af í miðjum þætti af Good Omens og við orðið að hætta. Í eina skiptið sem hún gerði það ekki vorum við að horfa á restina af þætti sem við höfðum byrjað á kvöldið áður. Sofnum tíu og vöknum sjö – fyrsta morguninn vaknaði ég fimm. Og við flest. Nadja og bróðir hennar ætla að taka þátt í hlaupi á morgun og þurfa að vakna fimm – ég held að hlaupið hefjist sex.

Í dag fórum við Nadja líka á kaffihús meðan hinir tóku síestuna. Café Costelo er í þriggja mínútna göngufjarlægð. Við skildum síma og veski eftir heima – ég stakk nokkrum seðlum í buxnastrenginn og svo hættum við okkur út fyrir múrinn. Þetta er leiðin:


Í götunni okkar, þar sem „hótelið“ stendur, eru tveir verðir með alvæpni sem sjá upp og niður hana. Svo við vorum til þess að gera örugg fyrir hornið. Í götunni handan hornsins er veggur að Panorama-svæðinu og á honum eru eftirlitsmyndavélar. Þar er maður væntanlega líka frekar öruggur. Það er því á þessum kafla þarna á Calle Principal Rancho El Coco sem maður er „berskjaldaður“. Þar mættum við þremur einstaklingum. Einn var vopnaður stórri sveðju og stóð handan götunnar – birtist skyndilega út úr skóginum, rölti smá áleiðis með okkur og sneri svo aftur inn í kjarrið sem hann tók að höggva. Annar sneri baki í okkur og stóð inni á bílastæði og mér sýndist hann vera með gítar um hálsinn, en það var auðvitað haglabyssa. Sá þriðji var vopnlaus bílstjóri sem stóð á tali við þennan með haglabyssuna.

Á kaffihúsinu var allt einsog á hvaða kaffihúsi sem er. Það var frekar mikið að gera – laugardagur og síestutími. Ég fékk mér ískaffi og empanöðu með kjúklingi og Nadja fékk sér latte og ostaköku. Á meðan við sátum þarna vaktaði Nadja götuna og sá slangur af fólki – þar af par með barn á hjóli – ganga framhjá. Af þessu ályktum við að þetta sé ekki jafn hættulegt ferðalag og af er látið og við ætlum að koma því upp í vana að fara þangað – brjóta einangrunina. Á leiðinni heim mættum við einum manni sem sat í hálfónýtum kyrrstæðum bílskrjóð. Hann var með gítar í aftursætinu – en enga haglabyssu, það ég gat séð.

Ég hef hugsað talsvert um fílabeinsturna og gullbúr. Fyrrnefnda líkingin er auðvitað röng – að vera í fílabeinsturni er annað, sá sem býr í fílabeinsturni er vissulega merkikerti sem fæst við andans efni með engin tengsl við hinn raunverulega heim í kringum sig og gæti þar með dugað ágætlega sem myndlíking fyrir mig, þar sem ég sit í rúminu með lapptoppinn og skrifa skáldsögu, en illa við þetta lystilíf/letilíf sem flestir íbúar Panorama ástunda.

Gullbúrið er lúxusfangelsið sem maður reisir sjálfum sér til þess að halda öðrum úti. Ég bý í þessu gullbúri, á því leikur ekki nokkur vafi, en það sem meira er: ég hef alltaf búið í þessu gullbúri, ég hef bara búið lengra frá rimlunum. Hugsanlega er Víetnam eina undantekningin – eina skiptið sem ég hef búið handan rimlanna. Og þar voru þó rimlar og lás á mannhæðarháu grindverkinu okkar. En vesturlönd eru múruð inni – það er ekki bara múrinn hans Trump í Mexíkó, sem Hondúrasbúar sækja mikið í að komast yfir, heldur múrar við Grikkland, á öllum flugvöllum, yfir miðjarðarhafið, þvert í gegnum Ísrael/Palestínu og svo framvegis. Veraldar hinna velmegandi er gætt með veggjum og vopnum. Venjulega sé ég ekki vopnin. Nú lít ég út um gluggann og horfi niður á múrinn og tvo menn með risastórar haglabyssur um hálsinn. Þeir standa yfirleitt í skugganum handan götunnar og hanga í símanum. En það fer samt voða fátt framhjá þeim. Á Íslandi gegna þeir sem fylgja hælisleitendum og flóttamönnum úr landi sama hlutverki. Þeir gæta auðæfa okkar.

Ég nefndi það í síðustu færslu að hér búa þingmenn og kaupsýslumenn. En ég nefndi ekki að sennilega er einhver hluti íbúanna hérna líka mafíósar. Einn kosturinn við að búa í sama húsi svona er að það auðveldar allt samráð – Hondúras er eitt af spilltustu löndum í heimi og samgangur milli stjórnmálamanna og glæpamanna mikill. Gott að geta bara kíkt á næstu hæð með mútuumslagið. Að líkindum búa aðalspaðarnir í fínni húsum en millistjórnendur gengjanna í húsum einsog þessu. Ég hef enn lítið orðið var við karlmennina sem eiga heima hérna en ég horfi á konurnar niðri við laug og velti því fyrir mér hverjar þeirra séu mafíósafrúr og hverjar þingmannafrúr.

Café Costello er í næstu götu. 

Comments

Popular posts from this blog

Barnasafn og Englagarðar

Hinn myrki fönix

Heiðríkjuströnd og Jaðisæhestur