Fótboltastríðið

Þetta er svolítið farið að leggjast á sálina. Ég hef sama og ekkert skrifað í þrjá daga. Ef ég tel daginn í dag, sem er í sjálfu sér ósanngjarnt – hann var að hefjast. Ég fór líka ekkert niður að laug, sat bara í herberginu okkar og hlustaði á suðið í loftkælingunni þar til mér fannst einsog hausinn á mér ætlaði að springa. Þá slökkti ég á loftkælingunni og sat bara og svitnaði í staðinn. Hér er engin sérstök hitabylgja en samt jafn heitt og í hitabylgjunni á meginlandi Evrópu. Ég hef synt 1,5 kílómetra annan hvern dag og ef ég fer eftir hádegi er laugin hlandvolg og þung gegnumferðar.

Það verður ekkert af helgarferðinni á lúxushótelið við ströndina. Ég var svo sem búinn að spyrja að því áður hvort valdaránsafmælið á föstudaginn gæti ekki haft áhrif á ferðaplönin – án þess að fá beinlínis svar – en þegar ég svo spurði við matarborðið í gær þar sem mágur minn var með, hvort það hefði engin áhrif, þá sagði hann bara: Já, nei, einmitt, nei þá förum við ekki neitt.

***

Í gær rifjaði ég upp fótboltaleikinn sem olli stríði – þegar El Salvador vann Hondúras 3-2 í þriðja leik liðanna um sæti á HM árið 1969. Það birtist grein á BBC. Í dag eru liðin 50 ár frá leiknum – ég skrifaði fyrst 30 en breytti því svo í 40 og loks í 50. Það eru 50 ár frá 1969. Sem þýðir að allir hippar eru orðnir ellilífeyrisþegar. Þetta var útúrdúr.



Þann 27. júní árið 1969 mættust löndin – leikurinn fór fram í Mexíkó og það eru ýkjur ef ekki hreinlega lygi að segja að leikurinn hafi valdið stríðinu. Það hafði verið ansi stirt milli landanna um hríð – aðallega út af innflytjendamálum, merkilegt nokk þá flykktust El Salvadorbúar til Hondúras í leit að vinnu eða ræktarlandi. Bæði löndin bjuggu við talsverðan skort á landi fyrir innlenda bændur – af því amerískir kapítalistar áttu allt – en skorturinn var sýnu verri í El Salvador sem er miklu minna land með nokkuð fleiri íbúa. Sama dag og leikurinn fór fram – en fyrir leik, vel að merkja – slitu El Salvadorsk yfirvöld á stjórnmálasamband við Hondúras.

Leikurinn vannst svo á lokamínútunni þegar Pipo Rodriguez laumaði boltanum framhjá markverði Hondúrasmanna, Jaime Varela. El Salvador vann – og rúmum hálfum mánuði síðar gerðu þeir innrás í Hondúras. Stríðið stóð í örfáa daga en talið er að um þrjú þúsund manns hafi látið lífið, meirihlutinn af þeim óbreyttir hondúrasbúar.

***

Það gafst heldur ekki tími til að koma bílnum í viðgerð í gær. Þetta er líf margra flöskuhálsa. Við erum að reyna að skipuleggja ferð til Utila og/eða Guatemala en það strandar alltaf allt og virðist vera ómögulegt. Mágur minn fær eðlilega ekki auðveldlega frí – það er eitt (og pælingin er að fara saman). Í öðru lagi er ómögulegt að segja fyrir um ástandið með neinum fyrirvara og ef maður bókar ekki með fyrirvara þarf maður að borga meira en við höfum efni á. Svo er bara alltaf áhætta að keyra – ekki á ofbeldi, vel að merkja, heldur bara á að sitja fastur. Það eru mjög vinsælar mótmælaaðgerðir að loka þjóðvegunum. Annar flöskuháls er svo að hér fara heimilismenn varla úr húsi milli 9 og 15 vegna sólar – mér finnst það alveg í það hysterískasta sjálfum. Við erum yfirleitt ekki búin að borða morgunmat klukkan 9 og síestan teygist oft til 17 – þá er farið út í einn klukkutíma. Í sjálfu sér gæti maður farið út í garð á kvöldin þegar börnin eru sofnuð en það eru allir alltaf svo þreyttir á kvöldin.

***

Dark Phoenix virðist vera hætt í sýningum. Svo það verður líklega heldur ekkert úr bíóferðinni sem ég lofaði Aram (og féll niður út af byltingartilrauninni í síðustu viku).

Mig langar að fara í mallið í dag. Aðallega til að komast úr húsi – en mig vantar líka betri sundskýlu og þykkari strengi í gítarinn. En mallið er líka svo þrúgandi – viðstöðulaus hávær og viðbjóðslega leiðinleg tónlist og hvergi afdrep. 

Comments

Popular posts from this blog

Barnasafn og Englagarðar

Hinn myrki fönix

Heiðríkjuströnd og Jaðisæhestur