Svartar rósir og svartir hundar

Við eyddum helginni í bænum Tela, á hóteli við hafið. Þetta er tveggja tíma akstur og frekar sætur lítill bær sem við sáum lítið af því við vorum bara á ströndinni og við hótelið. Á leiðinni keyrðum við að öðru hóteli sem mági mínum hafði litist betur á til að athuga hvort eitthvað væri laust en þar var þá brúðkaup eða annars konar álíka viðburður. Þegar við keyrðum upp að því svæði lentum við í tvennu áhugaverðu.

Fyrst komum við að hópi ungmenna, svona á að giska tvítugra, sem stoppuðu alla bíla og rukkuðu þá um toll/mútur á þeirri forsendu að þau væru að gera við veginn. Þar voru vel að merkja engin verkfæri og ungmennin sem ekki stoppuðu bílana lágu bara í vegakantinum og nöguðu strá og spjölluðu gleðilega sín á milli. Þau sem stóðu við bílana voru ekki beinlínis ógnandi en kannski ekki beinlínis ekki-ógnandi heldur. Vegurinn var hins vegar vissulega viðgerðar þurfi. Við borguðum nú samt þennan smotterístoll og fórum í gegn.

Næst komum við að hliði inn að svæðinu – handan hliðsins var slangur af hótelum og nokkrir veitingastaðir. Hliðvörðurinn var lengst af ekki á því að hleypa okkur í gegn. Í fyrsta lagi þá væri alveg klárt mál að þetta hótel sem við vorum að spá í væri uppbókað og í öðru lagi þá ynni hann ekki fyrir hin hótelin eða veitingastaðina og þau skulduðu honum laun svo hann gæti alls ekki opnað fyrir okkur ef við ætluðum til þeirra. Á endanum fór Nadja út úr bílnum til að tala við hann og þá stakk hann upp á þeirri lausn að Nadja myndi sjálf opna hliðið. „Það er alltílagi, þú getur opnað hliðið. En ég get það ekki“, sagði hann. Og það varð auðvitað bara úr.

Hér borðuðum við hádegismat á kránni Svörtu rósinni þar sem við hlustuðum á dúndrandi vont teknó og skelltum okkur aðeins í sjóinn á meðan við biðum. Sennilega var maturinn rúma klukkustund á leiðinni og hann var ekkert sérstakur – ég hef lítið fengið af góðum mat hérna. Þetta er þriðja rómansk-ameríska landið sem ég þvælist í gegnum – hin tvö eru Kúba og Brasilía – og þótt þau séu annars öll mjög ólík þá eiga þau það sameiginlegt að þar hef ég lítið fengið af góðum mat. Ekki að hann sé neitt vondur heldur – bara frekar óspennandi.

Á meðan við biðum eftir matnum sló það mig hvað þetta nafn á kránni væri undarlegt – Svarta rósin, þetta er einsog úr einhverri Tinnabók. Ég ákvað að taka mynd af skiltinu:


Skemmst er frá því að segja að ég deildi myndinni á Twitter og nú er hún komin út um allt internet.

Eftir matinn rúntuðum við í gegnum bæinn og að hótelinu okkar, Telamar Resort, og komum okkur fyrir. Svo fórum við út í sundlaugargarð og fljótlega fór að hellirigna – það er rigningartímabil og rignir mikið seinnipartinn og á kvöldin. Krakkarnir létu það ekki trufla sig í lauginni enda mjög hlýtt og við Nadja plöntuðum okkur upp á svalir á sundlaugarkránni fram á kvöldmat (sem var óspennandi hlaðborð).

Skæpað við ömmu og afa í rigningunni.

Sundlaugargarðurinn. 
Daginn eftir var sól og blíða og við fórum á ströndina – leigðum bát sem sigldi með okkur út á það sem þeir kölluðu „kóralrif“ en var nú bara ósköp venjulegur sjávarbotn. Þar snorkluðum við og brenndum okkur á marglyttum. Þegar við komum aftur í land lékum við okkur á ströndinni – ég, Aino og Aram vorum ábyggilega vel á aðra klukkustund að kasta okkur í öldurnar og ég veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma verið jafn glaður. Ég var hins vegar ekki í bol eða peysu og ekki með neina sólarvörn, annað en börnin, enda óvanur að brenna – hef ekki sólbrunnið síðan ég var barn og þá bara mjög, mjög lítið. Nú brann ég – vægt, en samt – í andliti og á öxlum.


Þá fengum við hádegismatarhlaðborð, sem var óspennandi en kannski ekki alveg jafn óspennandi og kvöldverðarhlaðborðið, og lögðum af stað aftur til San Pedro Sula. Á leiðinni komum við við í verslunarmiðstöð nálægt El Progreso og urðum vitni að svona barnafegurðarsamkeppni, þar sem uppstrílaðar sjö ára stúlkur kepptu um hver væri sætust. Einsog það var nú undarlegt þá var eiginlega ekki síður undarlegt hvað allur hávaði – hljóðnemi kynnisins og tónlistin – var mikill. Ég hefði staldrað lengur við til að seðja forvitni mína ef hávaðinn hefði ekki verið svona óbærilegur og ískrandi. 

Umferðin hérna er svo kapítuli út af fyrir sig. Ég er ekki óvanur kaotískri umferð, af íslenska eða víetnamska skólanum, en hún er samt þægilegri. Á Íslandi er allt í nokkuð föstum skorðum og fólk fylgir umferðarreglunum þótt það keyri hratt og gefi fram úr svíni pínulítið og það sé auðvitað óhemja af bílum. Í Víetnam eru allir á vespum, enginn fer eftir umferðarreglunum en allir keyra frekar hægt og það sem meira er, þeir keyra jafn hratt. Þegar maður hefur fattað lógíkina í víetnamskri umferð er hún mjög þægileg og það verður t.d. hægur leikur að ganga í gegnum kraðak af vespum til að komast yfir götuna. Eða beygja inn í stórfljótið og finna sér stað í þvögunni. Hér keyra allir á karlmennskunni einni saman – ef maður er ekki fastur við stuðarann á bílnum fyrir framan þá treður sér einhver á milli. Að það sé rautt ljós á næstu þvergötu er engin trygging fyrir því að einhverjir bílar eða mótorhjól laumi sér ekki yfir ef það gefst færi. Ef vegarkanturinn er bærilega sléttur má líka allt eins eiga von á því að þar gefi einhver fram úr manni. Og þeir eru stanslaust að gefa fram úr við sjúklega tæpar aðstæður – treysta því bara að bíllinn sem kemur á móti þeim hægi á sér. Þegar ég fletti þessu upp sé ég líka að þótt afríkulöndin séu verst, þegar kemur að dauðsföllum í umferðinni, þá er Hondúras versta landið utan Afríku – með þrisvar sinnum fleiri dauðsföll en á Íslandi og sex sinnum fleiri dauðsföll en í Svíþjóð. 

Annað er sosum ekki að frétta. Aram og Nadja vöknuðu fyrir allar aldir í gær og fengu far með Yesper, sem var að fara í vinnuna, upp að Coca Cola skiltinu. Eða, upp að göngustígnum. Í gærkvöldi fóru þau svo út til að leika sér að halda bolta á lofti og Aram sparkaði boltanum óvart í andlitið á sér og það triggeraði svolítið mikla sorg, sem sennilega hefur verið að meltast um hríð. Hann kom upp í íbúð alveg ónýtur af heimþrá og söknuði eftir vinum sínum. Hann er sá eini hérna sem hefur engan eiginlegan jafningja. Aino leikur talsvert við Rion og unir sér vel – en þá er hún líka minna með Aram. Þótt hann sé að mörgu leyti líkur mér með að geta unað sér einn – hann ryður í sig bókum hérna, vetrarseríu Hildar Knúts og tveimur fantasíuseríum eftir Rick Riordan á sænsku, og spilar mjög mikið Zelda – þá er hann líka félagslyndari og á mikið af vinum sem hann er vanur að hafa í kringum sig. Hann er líka orðinn mjög vanur ákveðnu frelsi – að vaða bara um allt og þurfa ekki að standa skil á öðru en að mæta í trommutíma og kvöldmat. 

Mér finnst líka þessi trigger kunnuglegur – að það gerist eitthvað svona fýsískt og það setji af stað allt hitt sem maður hefur ekki getað hanterað. Það næsta sem ég hef komist því að fá taugaáfall var þegar ég barði mig óvart í höfuðið með stálskröpu á kústskafti við vinnu í skipasmíðastöðinni í Þórshöfn skömmu eftir tvítugt – þá var ég úttaugaður af rugli og þreytu, vinnu og djammi, og lagðist bara út í horn á bakvið trollspilið og grét þar til Gorkíska vinnuflautan sendi okkur heim. 

Við áttum langt spjall um heimþrá og sorgina og hversu mikilvægt það væri að finna hamingjuna í því sem maður hefði og því sem maður gæti gert, frekar en því sem maður hefði ekki – að reyna að njóta þess að vera í Hondúras með Rion og Yi og Yesper og njóta þess svo að vera Ísafirði með vinum okkar og ættingjum þegar við komum þangað. Og hversu mikilvægt það væri að leyfa sér að vera sorgmæddur. Það er ekkert að því að líða illa – það er bara hluti af ferlinu. 

Í dag svaf hann fram eftir öllu og líður sjáanlega miklu betur. Yi flaug til Tegucigalpa til að sinna erindum í kínverska sendiráðinu og við – eða Nadja og krakkarnir, ég er að vinna – sjáum um Rion á meðan. Við erum að reyna að skipuleggja eitthvað sniðugt að gera – hugsanlega Guatemala, hugsanlega Copán-rústirnar, hugsanlega Útila og meira snorkl, hugsanlega bara einhver bær þar sem er hægt að hangsa. Ekkert af þessu er sérlega ódýrt og við ekkert ofsalega fjáð – Hondúras er dýrara land en við höfðum reiknað með (og auðvitað ekkert kynnt okkur). En nú höfum við verið hér í mánuð og bara mánuður eftir. 

Comments

Popular posts from this blog

Barnasafn og Englagarðar

Hinn myrki fönix

Heiðríkjuströnd og Jaðisæhestur